Skip to content

Raflagnir

Raflagnir

Tökum að okkur endurnýjun og viðgerðir á raflögnum og rafmagnstöflum í eldri húsnæði fyrir húsfélög og einstaklinga.


Ljósarofar

Nánast alla daga notum við ljósarofa til að kveikja og slökkva ljósin. Stundum þarf að þreifa um í myrkri til að finna rofann og er þá mikilvægt að hann sé heill og óbrotinn til að komast hjá rafstuði. Rofar slitna og sambandsleysi í þeim getur gefið stuð og verið óþægilegt og varhugavert. Mikilvægt er að fá löggiltan rafverktaka til að yfirfara rofa og annan búnað til að komast hjá óþægindum.

Lekastraumsrofinn

Lekastraumsrofinn er helsta öryggistæki rafkerfissins. Ef útleiðsla verður í raflögn eða rafbúnaði, t.d vegna bilunar í jarðtengdu tæki, á rofinn að slá út og rjúfa allan straum. Lekastraumsrofi nýtist ekki nema raflögnin sé jarðtengd og athuga þarf reglulega hvort hann virki með því að þrýsta á prófhnappinn á viðkomandi lekastraumsrofa.

Rafmagnstaflan

Hjarta rafkerfisins í hverju húsi er rafmagnstaflan. Í gegnum hana fer allt rafmagn sem notað er. Öryggin í henni eiga að koma í veg fyrir að of mikið álag myndist eða að skammhlaup valdi tjóni. Bræðivör eru í eldri töflum og þeim þarf að skipta út ef þau springa. Í nýrri töflum eru varrofar sem slá út sjálfkrafa við bilun eða of mikið álag. Eldri og illa farnar rafmagnstöflur geta verið varhugaverðar, sérstaklega ef þær eru úr tré eða staðsettar í rými þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að fá löggiltan rafverktaka til að kanna ástand rafmagnstaflna og gera viðeigandi ráðstafanir áður en skaði hlýst af. Hafa ber í huga að í öllum rafmagnstöflum er mikilvægt að hafa góðar og læsilegar merkingar sem sýna meðal annars hvað öryggi eru sterk og hversu mörg amper eru fyrir hvern húshluta.

Gamlar raflagnir

Fram til 1950 voru rafmagnsleiðslur sem lagðar voru í hús hér á landi með tjörueinangrun. Ekki var gert ráð fyrir að slík einangrun entist lengur en 30 ár því að hún kolast með tímanum og einangrun hættir að virka. Eftir það eru möguleikar á skammhlaupi og útleiðslu sem myndar neistaflug sem getur kveikt í. Oftast koma skemmdir fyrst í ljós næst rofum, tenglum eða öðrum tengistöðum. Ef grunur leikur á að raflögn hjá ykkur sé slitin og frá þeim tíma þegar enn var notuð tjörueinangrun er rétt að gera varúðarráðstafanir til að endurnýja raflögnina.